Landsvirkjun og Landeldi gera grænan raforkusamning

Halldór Ólafur Halldórsson stjórnarformaður Landeldis og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar staðfestu í dag raforkusamning fyrirtækjanna á athafnasvæði Landeldis í Þorlákshöfn. Ljósmynd/Aðsend

Landsvirkjun og Landeldi hf. hafa samið um sölu og kaup á allt að 20 MW raforku til nýrrar laxeldisstöðvar Landeldis í Þorlákshöfn. Viðræður hafa staðið yfir frá því 2021. Endurnýjanleg orka er lykill að sjálfbærri framleiðslu fyrirtækisins, sem jafnframt nýtir jarðsjó og ferskvatn við starfsemi sína.

„Samningurinn við Landsvirkjun er undirstaða okkar starfsemi. Landeldi í Þorlákshöfn er framsækið nýsköpunarverkefni og í samningnum felst viðurkenning á vegferð okkar í að bæta hringrásarhagkerfið. Jafnframt ber samningurinn og stærð hans vott um vel nýtt samkeppnisforskot sem við Íslendingar búum að í umhverfisvænni sjálfbærri raforku. Lax Landeldis er holl og góð vara, sjálfbær matvælaframleiðsla og svarar kallinu eftir auknu matvælaöryggi,“ segir Halldór Ólafur Halldórsson, stjórnarformaður Landeldis.

Fjölbreytni í matvælaiðnaði
Samningurinn ber nýjum áherslum í orkusölu Landsvirkjunar vitni, en fyrirtækið hefur lýst því yfir að ein af megináherslum næstu ára þegar kemur að raforkusölu verði nýsköpun sem krefst orku og eykur fjölbreytni atvinnulífs, m.a. í matvælaiðnaði.

Að sama skapi fellur samningurinn að markmiði Landeldis um sjálfbæra matvælaframleiðslu, jákvæðu vistspori og verndun sjávar. Á vatnstökusvæði fyrirtækisins í Þorlákshöfn hefur fyrirtækið aðgang að ferskvatni og jarðsjó við kjörhitastig allt árið um kring. Náttúruleg hraunsíun sjávarins í gegnum ung jarðlög hreinsar sjóinn, jafnar hitann og skapar hagfelldar aðstæður fyrir laxeldisstöð. Lax frá Landeldi getur ekki sloppið út í náttúruna og ógnað villtum laxastofnum.

Raforkusamningur fyrirtækjanna kveður á um allt að 20 MW af afli, en afhending orkunnar eykst í áföngum eftir því sem laxeldisstöðin stækkar á næstu árum. Orkan verður afhent úr núverandi orkukerfi, en fyrirhuguð aukin orkuvinnsla á Suðurlandi mun skjóta sterkari stoðum undir afhendingu hennar. Landeldi kaupir jafnframt upprunaábyrgðir með raforkunni, enda hyggst fyrirtækið selja vörur sínar á erlendum mörkuðum og sér hag í að vísa til grænu, endurnýjanlegu orkunnar sem notuð er við framleiðsluna.

Græn orka fyrir sjálfbæra verðmætasköpun
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir græna orku fyrirtækisins afar eftirsótta auðlind.

„Orkufyrirtæki þjóðarinnar vill forgangsraða orkusölu til verkefna sem styðja við verðmætasköpun og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Laxeldisstöð Landeldis er einmitt slíkt verkefni. Við hjá Landsvirkjun erum spennt fyrir framhaldinu, þessari einstöku nýsköpun sem jafnframt er fyrsti stórnotandinn á helsta orkuvinnslusvæði okkar á Suðurlandi,“ segir Hörður.

Starfsmenn Landeldis og Landsvirkjunar komu saman á athafnasvæði Landeldis, í tilefni undirritunarinnar. Ljósmynd/Aðsend

 

Fyrri greinStyrkja Einstök börn um 2,2 milljónir króna
Næsta greinBikardraumurinn fokinn út í veður og vind