Að sögn Odds Bjarnasonar, formanns veiðifélags Þjórsár, hefur ekkert gengið hjá félaginu að fá fundi með forráðamönnum Landsvirkjunar.
„Við höfum gert fjórar tilraunir í sumar til að koma á fundi með þeim en þeir hafa ávallt frestað fundinum rétt áður en hann hefur átt að hefjast. Það finnst okkur heldur bagalegt,” sagði Oddur.
Að sögn Odds er nauðsynlegt að fá viðræður við Landsvirkun um fiskgengd í Þjórsá í tengslum við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir. „Við viljum tryggja áframhaldandi fiskgengd upp þverár Þjórsár áður en lengra er haldið.”
Að sögn Odds hefur fiskgengd verið að aukast mjög í þverám Þjórsár sem hefur gert veiðréttarhöfum kleift að gera betri samninga. Samningur sá sem veiðifélag Fossár gerði við leigutakan Hreggnasa sýnir glögglega að veiðirétturinn er nú verðlagður hærra en áður. Hreggnasi leigði Fossá fyrir 8,5 milljón króna til fjögurra ára í vor en slíkur samningur hefur ekki áður verið gerður um ána.
Það eru Skógrækt ríkisins og Skeiða- og Gnúpverjahreppur sem eiga veiðirétt í ánni. „Þessi leiga hefur aukið mönnum bjartsýni um að hægt sé að leigja þverár Þjórsár fyrir hærri upphæðir í framtíðinni,” sagði Oddur.