81% foreldra grunnskólabarna í Árborg eru á heildina litið ánægðir með grunnskólann sem barnið þeirra er í.
Þetta kemur fram í rafrænni foreldrakönnun sem fræðsluyfirvöld í Árborg létu framkvæma í vetur. 5% foreldra eru óánægðir á heildina litið.
Þrír grunnskólar eru í Árborg; Vallaskóli, Sunnulækjarskóli og Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þátttaka í könnuninni var góð, af 768 beiðnum komu 577 svör eða 73%.
Spurningarnar í foreldrakönnuninni snérust um viðhorf til skólans og innra starfs, líðan barns í skólanum, sérkennslu og stuðning, samskipti við foreldra og aðbúnað og umönnun barns.
Ef rýnt er í könnunina kemur í ljós að 86% foreldra eru ánægðir með samskipti við umsjónarkennara en 12% voru óánægðir með upplýsingastreymi frá umsjónarkennara um líðan og félagsanda í bekk. 28% foreldra telja of lítinn aga vera í skólunum.
14% foreldra segja að barnið sitt hafi orðið fyrir einelti á síðustu tólf mánuðum, flestir í Barnaskólanum á Eyrarbakka á Stokkseyri en fæstir í Sunnulækjarskóla.
Helmingur foreldra sem svöruðu áttu börn í skólavistun. Áberandi er að um fjórðungur þeirra var óánægður með húsnæði skólavistunarinnar og verð þjónustunnar.