Langisjór friðlýstur

Umhverfisráðuneytið hefur gefið út reglugerð til staðfestingar á stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs, sem felur í sér friðlýsingu Langasjós, hluta Eldgjár og nágrennis.

Innan þeirra svæða sem reglugerðin tekur til eru náttúruminjar sem taldar eru hafa mikið gildi á heimsvísu, auk hins háa útivistar-, fræðslu- og vísindagildis þeirra.

Stækkun þjóðgarðsins tekur til tveggja svæða á Náttúruverndaráætlun 2009-2013, samtals um 420 km2.

„Annars vegar er um að ræða svæði sem kennt er við Langasjó og Tungnárfjöll en það hefur að geyma víðerni og einstakar jarðmyndanir sem tengjast eldvirkni á löngum gossprungum. Meðal þeirra eru móbergshryggirnir Grænifjallgarður og Fögrufjöll, sem mynduðust við gos undir jökli á ísöld, og norðausturhluti Eldgjár sem gaus árið 934 gríðarmiklu hraungosi. Langisjór er eitt stærsta ósnortna stöðuvatn á hálendi landsins, um 25 km2, og rómað fyrir náttúrufegurð. Þá nær fyrirhuguð stækkun til efsta hluta Skaftár og Skaftáreldahrauns norðvestan Lakagíga sem þegar eru friðlýstir sem hluti Vatnajökulsþjóðgarðs.

Hitt svæðið sem verður hluti þjóðgarðsins er efsti hluti Skaftáreldahrauns suðaustan Lakagíga. Markmið þeirrar friðlýsingar er að vernda staðbundna og afar sjaldgæfa vistgerð á hálendinu, breiskjuhraunavist, í einu stærsta hrauni sem runnið hefur á jörðinni á sögulegum tíma,“ segir á vef umhverfisráðuneytisins.

Fyrri greinKallað eftir kaupamönnum
Næsta greinSlóvenskur bakvörður til Selfoss