Sauðfé er óvenju vel framgengið víðast hvar á landinu og Suðurland er þar ekki undantekning. Kristinn Guðnason, fjallkóngur á Landmannaafrétti, segir að langt sé síðan fé af fjalli hafi litið svo vel út.
„Þetta er náttúrulega búið að vera einstakt sumar og það hefur farið vel um fé. Hitt er svo líka að við erum alltaf að ná betri og betri tökum á sauðfjárræktinni og meðhöndlun fjárins hefur líka batnað. Ef ég hef tekið rétt eftir þá var meðalvigtin í sláturhúsi SS í síðustu viku um 16 kíló það sem af er. Sjálfur er ég búinn að láta tvo þriðju af mínum lömbum og meðalvigtin er 18 kíló. Það er af sem áður var þegar það þótti gott að ná 14 kílóum,“ segir Kristinn.
„Það hefur líka smalast mjög vel og ekki mikið sem vantar. Helst er það mislitt og dökkt fé sem hefur farið fram hjá smölunum, enda enginn snjór á afréttinum,“ segir Kristinn.