
Malbikunarframkvæmdir við Eyraveg 42 á Selfossi, sem hýsir nýju Nettó-verslunina og Lyfjaval, hefjast á morgun, miðvikudag.
Óhætt er að segja að viðskiptavinir bíði mikilli eftirvæntingu eftir þessum framkvæmdum, þar sem malarplanið sem fyrir er hefur gert fólki lífið ansi leitt í vetur.
Tafir urðu bæði á opnun Nettó og Lyfjavals á sínum tíma vegna bílaplansins sem var ófrágengið. Með hækkandi sól og hækkandi hitastigi er nú loksins hægt að hefja lokafrágang.
Þakklát fyrir skilninginn
„Við erum himinlifandi með að þetta sé loksins að byrja. Viðskiptavinir okkar í húsinu hafa sýnt okkur mikinn skilning og fyrir það ber að þakka,“ segir Svanur Valgeirsson, framkvæmdastjóri Lyfjavals, í samtali við sunnlenska.is.
Bílalúgur Lyfjavals verða lokaðar næstu daga á meðan malbikun stendur en apótekið verður þó ennþá opið fyrir gangandi vegfarendur.
Svanur segir að malbikað verði í áföngum í kringum húsið enda verkið umfangsmikið. „Við verðum bara að biðja um þolinmæði í um það bil eina viku og þá verður þetta orðið allt annað.“
Stefnt er verklokum 3. apríl
„Lúgurnar skipta okkur miklu máli og því verður auðvitað erfitt að þurfa að loka þeim í þennan tíma. En sem betur fer miðast skipulagið við að geta haft opið inn um aðalinnganginn allan tímann. Við ætlum að hafa opið inn til 21 í stað 19. Svo sýnist mér við geta farið í venjulegan opnunartíma frá 3. apríl. Vorið er svo sannarlega að koma á Eyraveginn,“ segir Svanur að lokum.