Heiðargæs hefur verpt rétt við flaggstöngina við skála Ferðafélags Íslands í Nýjadal á Sprengisandi.
Skálaverðir og landverðir verða að ganga hljóðlega um planið til að styggja hana ekki, enda er hún mjög vör um sig og fer af hreiðri ef skarkali verður of mikill.
„Það er slæmt að geta ekki sett fánastöngina upp og flaggað, en við verðum bara að bíða. Það eru fjögur egg í hreiðrinu,“ segir Gunnar Njálsson, landvörður, sem hefur gefið gæsamömmu nafn og heitir hún Lára.
Skálaverðir komu þann 12. júní í Nýjadal og landverðir nokkrum dögum seinna. Búið er að hefla upp í Nýjadal að sunnanverðu en beðið er enn með heflun og mokstur norðan við til Norðurlands.
Gunnar segir að miklir skaflar séu enn á Sprengisandsvegi uppúr Bárðardal.
„Það hefur lítið af ferðafólki komið hingað þessa fyrstu daga, þeir bíða eftir að vegurinn opnist norðurúr. En við bíðum eftir spennandi sumri í ferðamennsku, enda náttúrufegurð mikil hér. Kannski kemur eldgos í jöklana eins og í fyrra,“ segir Gunnar en sól og blíða hefur verið í Nýjadal síðustu daga.