Uppskeruhátíð sumarlestrar í Bókasafninu í Hveragerði fór fram á dögunum. Yfir 80 börn voru skráð í sumarlesturinn en aðeins 35 höfðu skilað inn lestrardagbókum fyrir uppskeruhátíðina.
Þessi 35 börn lásu tæplega 40.000 blaðsíður í sumar, sem er óhemju mikið, og svo er öruggt að mörg þeirra sem ekki skiluðu lásu samt heilmikið.
Ýmsar viðurkenningar voru veittar á uppskeruhátíðinni. Fyrir mestan lestur hlutu viðurkenningu Kristín Sif Daðadóttir, Andrea Sjöfn Heimisdóttir og Ívar Dagur Sævarsson og auk þess einn úr hverjum bekk.
Einnig var dregið í sumarlestrarhappdrættinu og hlaut Hanna Tara Björnsdóttir aðalvinninginn, leikhúsmiða fyrir tvo, en einnig var dregið um nokkra aukavinninga.