„Þetta er námskeið um mat, að gera matinn heilsusamlegri án þess að fara í einhverjar öfgar,“ segir Rósa Traustadóttir, heilsuráðgjafi og jógakennari, en næstkomandi fimmtudag verður Heilsukvöld hjá Hugform á Selfossi.
Að sögn Rósu verður farið yfir leiðir til að breyta til hins betra með einföldum hætti. „Það er alltaf best að byrja rólega án þess að kúvenda öllu því flestir gefast upp á því líkt og ef líkamsræktin er tekin með of miklu trukki. Það er best að taka þetta í ákveðnum skrefum.“
„Við kíkjum á sykurpúkann og hvernig best er að stjórna honum sem er vandamál margra sérstaklega eftir jólin þegar margir detta í konfektskálina,“ segir Rósa og bætir því við að boðið verður upp á lífrænt birkite og smakk af einhverri hollustu á námskeiðinu sem auðvelt er að bæta inn í hversdaginn.
Rósa segir að námskeiðið sé fyrir alla þá sem hafa áhuga á því að breyta til hins betra í mataræðinu. „Þetta er námskeið fyrir þá sem vilja gera árið 2016 örlítið hollara og betra fyrir heilsuna. Eins og Sókrates sagði forðum: Lát mat þinn vera meðal þitt en það er kannski aðalmarkmið námskeiðsins,“ segir Rósa að lokum.
Sem fyrr segir er námskeiðið næstkomandi fimmtudagskvöld. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Hugforms.