Laufey er nútíma bensínstöð – án bensíns

Björgvin Einarsson, Óðinn Birgir Árnason og Tómas Þóroddsson í nýju þjónustumiðstöðinni við þjóðveg 1. Ljósmynd/Aðsend

Þjónustumiðstöðin Laufey opnaði í dag en miðstöðin er við Þjóðveg 1 hjá gatnamótunum að Landeyjahafnarvegi.

„Við erum að opna nútíma bensínstöð án bensíns, það er að segja rafhleðslustöð, vandaðan veitingastað, upplýsingamiðstöð, verslun sem verður opin allan sólarhringinn og sjálfhreinsandi klósett,“ segir Tómas Þóroddsson, einn af hluthöfum Laufeyjar, í samtali við sunnlenska.is.

Í þjónustumiðstöðinni rekur Tómas einnig veitingastaðinn Laufey bistro, ásamt Óðni Birgi Árnasyni. „Veitingarnar eru í íslenskum anda; lambaskankar, fiskibollur, plokkfiskur, salöt og svo auðvitað einfaldari matur eins og hamborgar og fleira. Svo má auðvitað ekki gleyma útsýninu en út um glugga Laufey bistro má sjá Vestmannaeyjar, Fljótshlíðina, Seljalandsfoss, upp í Þórsmörk og Eyjafjöllin. Það er hvergi fallegra,“ segir Tómas.

Húsin eru í burstabæjarstíl og falla vel að umhverfinu. Ljósmynd/Aðsend

Mjög sjálfvirk stöð
Aðspurður hvað þjónustumiðstöðin skapi mörg ný störf segir Tómas að það sé enn óljóst. „Við rennum svolítið blint í sjóinn með starfsmannafjöldann. Þetta er mjög sjálfvirk stöð, en auðvitað þarf ennþá að elda mat, hafa stjórn á hálfsjálfvirku skúringarvélini og fara út með ruslið.“

„Undirbúningurinn að þessu er búinn að standa yfir hjá góðum hópi undanfarin sex eða sjö ár. Við fórum af stað með sjálfhreinsandi klósett þegar umræðan var sem mest um aðstöðuleysi ferðamanna. Svo vatt þetta upp á sig; rafhleðslustöðvar, veitingastaður, verslun og upplýsingamiðstöð. Stefnan er að byggja fleiri stöðvar og höfum við tryggt okkur nokkrar lóðir víðsvegar um landið. Stöðvarnar verða misstórar, stundum bara rafhleðsla og klósett og svo allt upp í fullbúna stöð,“ segir Tómas að lokum.

Nánar er hægt að lesa um verkefnið hér.

Sjálfhreinsandi salernin sem eiga eflaust eftir að slá í gegn hjá ferðamönnum. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinAuknar líkur á skriðuföllum á Suðurlandi
Næsta greinBergrós í svissnesku úrvalsdeildina