Landsmenn hafa tekið upp nýjan heilsusamlegan og umhverfisvænan sið sem á rætur sínar að rekja til Svíþjóðar. Að plokka snýst um að tína upp rusl á förnum vegi á meðan gengið er eða skokkað.
Á morgun verður laugardagsplokk í Árborg en á milli kl. 9-12 verður hægt að nálgast plastpoka til ruslatínslu á sjö stöðum í Árborg og að lokinni tínslu verður hægt að losa sig við afraksturinn í stórsekki á sömu stöðum.
Þessar stöðvar verða við sjoppuna á Eyrarbakka, við sjoppuna á Stokkseyri og á Selfossi sunnan við ráðhúsið, sunnan við Krambúð, við íþróttahús Sunnulækjarskóla, við leikskólann Árbæ og á planinu við Gesthús.
Plokkarar í Árborg skoruðu á bæjaryfirvöld að skipuleggja laugardagsplokkið og fagnar sveitarfélagið framtaki íbúa sem vilja stuðla að snyrtilegu umhverfi og leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að tína rusl sem víðast.
Hægt er að losa sig við afrakstur plokksins í stórsekkina eða á gámasvæðinu við Víkurheiði, sem er opið frá kl. 13-17. Sekkirnir verða fjarlægðir fyrir kl. 15. Mikilvægt er að í sekkina fari rusl í pokum sem hnýtt hefur verið fyrir.
Árlegt hreinsunarátak sveitarfélagsins mun svo standa frá 7. til 12. maí og verður þá unnt að skila úrgangi á gámasvæðið við Víkurheiði, án endurgjalds, auk þess sem gámar fyrir úrgang verða á Eyrarbakka og Stokkseyri að venju.