Laugardagskvöldið 12. nóvember verður svokallað Sveita-Samflot í Laugaskarði í Hveragerði.
„Við höfum lengi rennt hýru auga til Laugaskarðs. Sjálfsagt allar gömlu góður minningarnar. Hún er vel staðsett með stóra sundlaug, stutt frá bænum en samt uppi í sveit,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir, en hún og systir hennar Jóhanna standa fyrir samflotinu. Þær stöllur reka heilsuhofið Systrasamlagið á Seltjarnarnesi og hafa staðið fyrir fjöldamörgum samflotum, meðal annars í Gömlu lauginni í Hrunamannahreppi.
„Þegar Jóhanna Margrét Hjartardóttir hjá Hveragerðisbæ sýndi okkur áhuga tókum við glaðar í þá hugmynd að halda þar Sveita-Samflot. Og líklega fleiri í framtíðinni,“ segir Guðrún en Sveita-Samflotið í Laugaskarði er samvinnuverkefni Systrasamlagsins, Flothettunar og Hveragerðisbæjar.
Flothettan er hönnun Unnar Valdísar Kristjánsdóttur. Ljósmynd Flothettan
Sundlaug með mikinn karakter
„Við erum sannfærðar um að í Laugaskarði megi bjóða upp á mörg áhugaverð flotheilsudjömm á laugardskvöldum á næstunni. Það er mikil þörf fyrir fallegan slökunarkúltur og andlega næringu í okkar hraða samfélagi. Þó bara eitt samflot sé í kortunum stendur til að skoða fleiri eftir áramót og fljóta við allskonar veðurskilyrði. Helsti kostur þess að fljóta í útilaugum landins er að öll veður hafa sinn sjarma,“ segir Guðrún.
Guðrún segir að laugin í Laugaskarði sé mjög hentug fyrir Samflot. „Fyrir utan fallegt umhverfi er hún það sem kallað er gegnumrennslislaug. Hituð upp með jarðgufu. Það tryggir bæði eðlilegt sýrustig og hreinleika. Það þýðir líka að það er auðvelt að hita hana upp í kjörhitastig fyrir Samflot. Svo er hún í hópi elstu lauga landsins sem gefur henni mikinn karakter,“ segir Guðrún og bætir því við að þær systur séu mjög skotnar í gömlum laugum sem byggja á heitum uppsprettum.
Gamla laugin í Hrunamannahreppi. Ljósmynd Guðrún Kristjánsdóttir
Upplifunin ólýsanleg
En hvað er Samflot? „Samflot er hugsað sem vettvangur fyrir fólk til að koma saman og njóta fljótandi slökunar og jafnvel hugleiðslu. Það er eitthvað við það að gera þetta saman eins og margt annað sem mannfólkið gerir saman og er gefandi og fallegt. Það er mjög misjafnt sem hver og einn fær út úr því að fljóta. Ég hef ekki ennþá heyrt í neinum sem ekki upplifir eitthvað áhugavert og sumir upplifa meira að segja töfra,“ segir Guðrún.
„Í Sveita-Samflotunum höfum við gengið lengra og boðið upp á jógaupphitun og tónheilunum og upplifunin verður þá oft ólýsanlega falleg. Í lokin er gott að gæða sér á steinefnaríkum drykk og samloku. Því eins undarlega og það nú hljómar eru allir mjög svangir eftir gott Samflot,“ segir Guðrún.
Boðið verður upp á tónheilun í Sveita-Samflotinu i Laugaskarði. Ljósmynd Guðrún Kristjánsdóttir
Karlmönnunum fer ört fjölgandi
Að sögn Guðrúnar er Samflot fyrir alla. „Konur leiddu það í upphafi og gera ennþá en karlmönnum fer ört fjölgandi. Í fyrstu voru það konurnar sem tóku mennina sína inn í Samflotið en nú eru þeir alveg farnir að koma sjálfir, einir eða vinir saman.“
„Margir krakkar hafa líka kíkt í Samflot og kannski eins og við fullorðna fólkið elska þau að fá aðeins stundarfrið frá streitu og amstri dagins. Krökkum finnst líka ævintýralegt að svífa um í þyngdarleysi og horfa á stjörnurnar eða skýjafarið.“
„Fólk þarf ekki að búa yfir neinum sérstökum hæfileikum til að geta notið flots. Það er aðallega bara að gefa eftir og leyfa sér að njóta og fljóta. Hæfileikinn sem eflist oft eftir flot er sá að geta slakað á, sem er ekki lítið,“ segir Guðrún.
Samflot er fyrir alla, konur og kalla. Ljósmynd Guðrún Kristjánsdóttir
Mikil þörf fyrir slökunarkúltúr
Ekki eru nema þrjú ár síðan Guðrún og Jóhanna systir hennar efndu til fyrsta Samflotsins í Sundlaug Seltjarnarness ásamt Unni Valdísi Kristjánsdóttur, hönnuði Flothettunnar. „Við vorum dálítið að nördast með þetta til að byrja með en vorum alltaf sannfærðar um að um leið og fólk prófaði myndi það kolfalla fyrir flotinu. Það varð raunin og nú er boðið upp á regluleg Samflot í mjög mörgum sundlaugum um land allt sem hafa sannarlega fundið þörfina fyrir meiri slökunarkúltúr.“
„Síðan tókum við á því að vera með fyrsta Sveita-Samflotið í Gömlu lauginni á Flúðum sumarið 2015. Meiri viðburð, sem snýst um kvöldflot þar sem við höfum laugina út af fyrir, meiri tíma, jóga og tónheilun og hitastig sem hentar. Fallegt heilsudjamm sem nærir og er umfram allt skemmtilegt. Það sló strax í gegn og nú viljum við gjarnan prófa uppáhaldslaugina í Hveragerði,“ segir Guðrún.
Ekki bara fyrir jógaiðkendur
Guðrún segir að í byrjun hafi verið mikið um jógaiðkendur sem sóttu í Samflotið en nú hafi fleiri bæst við. „Nú kemur mikið af fólki sem stundar allskonar íþróttir og þarf að lækka kortisólið, sem og þeir sem hafa engan áhuga á íþróttum eða jóga. Eða þeir sem elska að komast á boðefnabarinn sem býr innra með okkur öllum.“
„Nú eru líka vandaðar rannsóknir að sýna að áhrif flots er alveg stórkostleg, nánast eins og það sé týndi hlekkurinn varðandi heilsu mannsins,“ segir Guðrún og bætir því við að þetta hefur verið ótrúlega fallegt ævintýri.
„Ég heyri gjarnan hjá ferðaþjónustuaðilum að þetta sé einmitt það sem þá vanti, fallegur slökunarkúltúr í heitum uppsprettum í fallegri náttúru. Auðlegðinni okkar. Þá er bara að vanda sig og gera þetta vel,“ segir Guðrún að lokum.
Allar nánari upplýsingar má finna á Facebook viðburði Samflotsins.