Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum í vikunni að lækka laun bæjarfulltrúa og nefndarmanna í Árborg um 5 prósent ótímabundið. Þá var samþykkt að vísitölutenging viðmiðunarfjárhæðar verði afnumin í eitt ár.
Með þessum breytingum sparast um 21,2 milljónir króna.
Tillagan var samþykkt með níu atkvæðum, þ.e. sex atkvæðum fulltrúa D-lista, einu atkvæði fulltrúa Á-lista, tveimur atkvæðum fulltrúa B-lista.
Tveir fulltrúar S-listans greiddu atkvæði gegn tillögunni og létu færa til bókar að þau lýstu yfir vanþóknun sinni og óánægju með tillögu meirihluta Sjálfstæðisflokks, þar sem ekki væri nema tæpt ár síðan reglum um launakjör og starfsaðstöðu bæjarfulltrúa og nefndarmanna var breytt í fullri sátt og samvinnu allra flokka sem þá áttu sæti í bæjarstjórn.