Tekjustofnar Skaftárhrepps hafa gersamlega brugðist það sem af er ári og er nú svo komið að lausafjárstaða hreppsins er skelfileg að sögn Eyglóar Kristjánsdóttur sveitarstjóra.
Sveitarstjórnin lýsti áhyggjum sínum vegna fjárhagsstöðu sveitarfélagsins á síðasta fundi sínum. Þar var samþykkt að setjast yfir skipulag fjármálanna og stöðuna á næstu vikum.
,,Heildarskuldir Skaftárhrepps eru ekki svo miklar en það er lausafjárstaðan sem veldur okkur erfiðleikum. Okkur vantar innspýtingu í hreppinn til að geta aflað okkur tekna,“ sagði Eygló Kristjánsdóttir í samtali við Sunnlenska.
Heildarskuldir Skaftárhrepps eru um 270 milljónir króna en íbúar í sveitarfélaginu eru um 440 talsins. Að sögn Eyglóar vantar núna um 30 milljónir króna til að ná jafnvægi á rekstri sveitarsjóðs.
Eygló segir að allir tekjustofnar sveitarfélagsins séu fullnýttir en tekjur hefðu ekki skilað sér í samræmi við áætlanir enda gos og önnur óáran kippt fótunum undan áætlunum einstaklinga og sveitarfélagsins.
Sveitarfélagið á ekki eignir til að selja og þá eru framlög frá Jöfnunarsjóði eins og þau geta orðið mest. Erfitt er talið að skera frekar niður í rekstri. Eygló útilokaði ekki að sveitarfélagið myndi leita aðstoðar til að ná tökum á fjármálum sínum.