Fimm verslanir á landsbyggðinni hafa fengið undanþágu til sölu tiltekinna lausasölulyfja eins og Panódíl, Íbúfen, Lóritín og Histasín og sala hófst á lyfjunum í Krambúðinni á Flúðum og Laugarvatni og Kjörbúðinni á Fáskrúðsfirði nú í vikunni.
RÚV greinir frá þessu. Aðrar verslanir sem hafa undanþágu eru Hríseyjarbúðin og Búðin Borgarfirði.
Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun má aðeins veita undanþágu þar sem ekki er starfrækt apótek eða lyfjaútibú. Til að heimilt sé að selja tiltekin lausasölulyf í almennri verslun þurfa að vera minnst 20 kílómetrar í næsta apótek eða lyfjaútibú.