Tímamót urðu í byggðasögu Rangárþings eystra þegar reisugildi var haldið í Lava eldfjalla- og jarðskjálftasetrinu á Hvolsvelli í lok janúar, en þá var húsið fokhelt.
Framkvæmdin hefur gengið vel, fyrsta skóflustungan var tekin í maí 2016, byrjað var að reisa veggi 20. nóvember og fyrirhugað er að setrið opni 1. júní næstkomandi.
Lava setrið er mikill búhnykkur fyrir Rangárþing eystra og mun setja svip á bæjarlífið í Hvolsvelli og áreiðanlegt er að þeir sem leggja leið sína um svæðið munu reka augun í hina glæsilegu og sérstæðu byggingu sem nú er risin.
„Þetta er gríðarlega spennandi verkefni,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra.
„Þarna skapast 25 ný störf og sveitarfélagið mun að sjálfsögðu hafa af því tekjur í formi fasteignagjalda og slíks. Rangárþing eystra er ekki beinn aðili að framkvæmdinni og á ekki hlut í setrinu, en við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að greiða götu þess. Meðal annars breyttum við deiliskipulagi svo að setrið gæti orðið að veruleika á þessum stað. Um leið var sett á skipulag lóð við hliðina á setrinu þar sem gert er ráð fyrir hóteli. Það eru ákveðnir aðilar sem eru áhugasamir um að reisa það hótel, en ég get ekki greint frá því hverjir það eru að svo stöddu.“
Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu