Lax-á fær Stóru-Laxá

Stjórn Veiðifélags Stóru-Laxár í Hreppum samþykkti á fundi sínum í gærkvöldi að ganga til samninga við Lax-á en ekki SVFR sem hefur haft ána á leigu frá árinu 1961.

Á mbl.is er haft eftir Esther Guðjónsdóttur, formanni veiðifélagsins, að Lax-á bauð um 40% hærra verð fyrir ána heldur en Stangaveiðifélag Reykjavíkur (SVFR).

Segir Esther að yfirgnæfandi meirihluti fundarmanna hafi viljað ganga til samninga við Lax-á. Tilboðið er um leigu á ánni í sex ár en að sögn Estherar á eftir að ganga frá samningi við Lax-á.

Undanfarin ár hefur SVFR sett töluvert fé í að greiða eigendum netaveiðileyfa í Hvítá og Ölfusá fyrir að leggja ekki net sín í árnar og hefur þetta skilað aukinni veiði í ám í uppsveitum Árnessýslu. Síðasta sumar var það gjöfulasta í Stóru-Laxá frá upphafi mælinga.

Esther segir að félagið eigi eftir að ræða við eigendur Lax-ár um hvort fyrirtækið muni taka þátt í slíku starfi.

Skammt er stórra högga á milli hjá SVFR þar sem nýverið var greint frá því að félagið væri búið að missa veiðisvæði Syðri-Brúar í Soginu.

Nýverið var stjórn SVFR tilkynnt að samningur við SVFR yrði ekki endurnýjaður þar sem hærra tilboð hefði borist í veiðiréttinn. Ekki fæst uppgefið hver nýr leigutaki er, samkvæmt frétt á vef SVFR.

mbl.is greindi frá þessu

Fyrri greinNeyðarkall björgunarsveita um helgina
Næsta greinLogi fékk æskulýðsbikarinn