Laxárdalsbændur fengu Landbúnaðar-verðlaunin

Landbúnaðarverðlaunin 2013 voru veitt við setningu búnaðarþings í gær. Að þessu sinni hlutu bændurnir í Laxárdal II og handverkshópurinn Handverkskonur milli heiða verðlaunin.

Í Laxárdal II búa hjónin María Guðný Guðnadóttir og Hörður Harðarson félagsbúi ásamt syni sínum Björgvini Þór og tengdadóttur, Petrínu Þórunni Jónsdóttur auk barna þeirra.

Í Laxárdal er rekið stórt svínabú sem hefur þá sérstöðu að stór hluti fóðurs er heimafenginn. Um 75 prósent af öllu fóðri sem svínin í Laxárdal fá er ræktað í Gunnarsholt þar sem Laxárdalsbændur leigja um 300 hektara lands undir kornrækt, einkum bygg.

Í frétt frá bændasamtökunum segir að bændurnir í Laxárdal hljóti Landbúnaðarverðlaunin fyrir myndarskap og dugnað, framsýni og nýsköpun í íslenskum landbúnaði.

Það var Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem afhenti verðlaunin.

Fyrri greinJólagjöf stolið í sundhöllinni
Næsta greinHenti lyfjum yfir girðinguna á Hrauninu