Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um flutning höfuðstöðva Rarik ohf. á landsbyggðina.
Meðflutningsmenn tillögunnar eru Silja Dögg Gunnarsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir, sem einnig eru þingmenn Framsóknarflokksins.
Tillagan er svohljóðandi: „Alþingi ályktar að stefna skuli að flutningi höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina og að kannað verði á grundvelli hagsmuna félagsins hvar væri hentugast að byggja upp höfuðstöðvarnar og efla starfsstöðvar Rariks um landið.“
Flutningsmenn tillögunnar telja að flutningur höfuðstöðva félagsins gæti endurspeglað starfsemi þess betur þar sem meginstarfsemi þess fer fram á landsbyggðinni. Höfuðstöðvar félagsins eru þó í Reykjavík þrátt fyrir að starfsemi þess á sér ekki stað þar. Finna má bækistöðvar félagsins m.a. á Selfossi, Höfn í Hornafirði, Seyðisfirði, Sauðárkróki, Siglufirði og í Ólafsvík.
Markmið flutningsins er m.a. það að tryggja fjölbreyttari atvinnukosti um land allt og með því tryggja öllum landsmönnum jöfn tækifæri og halda landinu öllu í blómlegri byggð, en mikil fólksfækkun hefur verið í samfélögum á landsbyggðinni vegna lítillar fjölbreytni starfa.