Skipulagsstofnun leggst gegn leyfi fyrir efnistöku í sjó úti fyrir Landeyja- og Eyjafjallasandi. Þar hugðist Heidelberg Cement Pozzolanic Materials taka allt að tvær milljónir rúmmetra af efni af sjávarbotni árlega til íblöndunar fyrir sementsframleiðslu í Ölfusi.
Í áliti Skipulagsstofnunar segir að mikil óvissa ríkji um umhverfisáhrif efnistökunnar og þess vegna sé varhugavert að veita leyfi fyrir áformaðri efnistöku.
Óvissan snúi að mjög mikilvægum þjóðhagslegum hagsmunum, þar sem um er að ræða áhrif á hrygningar- og uppeldissvæði mikilvægra nytjastofna þjóðarinnar. Þá snýr óvissan fyrst og fremst að því hversu neikvæð áhrifin verða, en langur tími kann að líða þangað til að þau áhrif koma fram.
Íbúar Ölfuss höfnuðu verksmiðju Heidelberg í íbúakosningu og hefur fyrirtækið nú kynnt fyrirætlanir sínar í sveitarfélaginu Norðurþingi.