Leggur til sameiningu leik- og grunnskóla

Fræðslunefnd Grímsnes- og Grafnings­hrepps samþykkti einróma á síðasta fundi sínum að beina því til sveitarstjórnar að sameina leik- og grunnskóla undir stjórn grunnskólans.

Sameiningin er fyrirhuguð frá og með 1. janúar 2011. Einnig verði stefnt að því að flytja starfsemi leikskóladeildar í húsnæði grunnskólans eins fljótt og auðið er.

Nefndin leggur líka til að stofnaður verði samráðshópur til að útfæra framtíðar­skipu­lag sameinaðs skóla. Skólastjóri leiði starfið og hópurinn njóti utan­aðkomandi ráðgjafar.

Guðný Tómasdóttir, formaður fræðslunefndar, sagði í samtali við Sunnlenska að húsnæði leikskólans Kátuborgar væri ákaflega illa farið og finna yrði leiðir til að endurbæta það eða byggja nýtt. Fræðslunefnd telur nauðsynlegt að yfirstjórn skólanna verði ein til að auðvelda vinnu við mat á hag­ræð­ingu skólamála Grímsnes- og Grafnings­hrepps. Mikið væri fundað þessa dagana innan sveitarfélagsins, unnar hefðu verið skýrslur um sam­einingu skólanna auk þess sem mál­efni þeirra hefðu verið á stefnuskrá T-listans fyrir kosningar.

Fyrri greinAðventukrans í fyrsta glugganum
Næsta greinStærsta samgöngubótin í áratugi