Sigurður Aðalgeirsson og Hólmfríður Guðmundsdóttir misstu allar eigur sínar aðfaranótt 6. desember síðastliðins þegar eldur kom upp í íbúðarhúsi þeirra í Hallingby í suðurhluta Noregs.
Sigurður, Hólmfríður og dætur þeirra tvær; Sóley Rós, 6 ára og Bryndís Lena, 4 ára vöknuðu upp um miðja nótt við að kviknað var í húsinu og náðu þau naumlega að forða sér út á nærfötunum einum saman.
Eftir eldsvoðann stofnaði móðir Sigurðar stuðningssíðu á Facebook með bankaupplýsingum til styrktar fjölskyldunni. Sigurður og Hólmfríður eiga meðal annars ættingja og vini í Þorlákshöfn, Hveragerði og á Selfossi og hefur söfnunin gengið vel.
Skömmu fyrir jól fréttu Sigurður og Hólmfríður svo af því að verið væri að ganga í fyrirtæki á Selfossi og biðja um styrk fyrir fjölskylduna en viðkomandi gaf upp annað reikningsnúmer.
„Söfnunin hefur hjálpað okkur mikið og við erum þakklát fyrir það en það er leiðinlegt að einhver sé að nýta sér okkar neyð svona. Þetta angrar mig ekki mikið, margir eiga erfitt og sjá kannski enga aðra lausn, en mér finnst óþægilegt að vita af því að hugsanlega sé verið að svíkja pening út úr fólki í okkar nafni,“ sagði Sigurður í samtali við sunnlenska.is.
Styrktarsíða Sigga, Hófýjar og dætra á Facebook
Styrktarreikningur Sigurðar, Hólmfríðar og dætra:
Kennitala: 030787-2939
Reikningsnúmer: 0140-26-1144