Grímsnes- og Grafningshreppur greiðir talsvert lægri upphæð fyrir leigu á skóla- og stjórnsýslubyggingu á Borg ef samningsdrög sem nú liggja fyrir við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. verða samþykkt.
Gunnar Þorgeirsson, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps, segir sveitarstjórn vera ánægða með samningsdrögin. Þau gera ráð fyrir því að gamli Glitnir og Háskóli Reykjavíkur gangi út úr Fasteign með eignir sínar og gerður verði samræmdur leigusamningur við öll sveitarfélögin innan Fasteignar til 25-27 ára á kaupleiguformi. Að honum loknum geti sveitarfélögin keypt fasteignir sínar gegn mjög lágri lokagreiðslu.
Gunnar segir leiguupphæð sveitarfélagsins fyrir húsnæði Kerhólsskóla lækka verulega verði þessi samningsdrög samþykkt.
Almenn ánægja virðist ríkja um samningsdrögin hjá öðrum leigutökum hjá Fasteign, en afstaða verður tekin til samningsins á aðalfundi Fasteignar hf. 9. ágúst.
Verði hann samþykktur mun hluthafaeign þeirra sem áfram verða leigutakar félagsins uppfærast í samræmi við leigugreiðslur þeirra. Þetta þýðir að Reykjanesbær verður með meira en helming atkvæða innan Fasteignar. Gunnar segir vera óásættanlegt að eitt sveitarfélag geti fengið ráðandi eignarhlut innan félagsins og væntir þess að atkvæðavægi Reykjanesbæjar verði takmarkað.