Tíu nemendur á elstu deild leikskólans Krakkaborgar í Flóahreppi eru nú í sóttkví vegna samskipta við einn smitaðan einstakling síðastliðinn fimmtudag.
Í tilkynningu frá Flóahreppi segir að brugðist hafi verið við aðstæðum eins og fyrirmæli sóttvarnarlæknis segja fyrir um. Sýnataka er áætluð á fimmtudag og mun hún liggja fyrir í lok vikunnar.
Í tilkynningunni segir ennfremur að ástæða sé til að fara varlega og halda uppi mjög öflugum sóttvörnum, passa upp á fjarlægðarmörk, nota grímu sé þess þörf, huga að handþvotti og spritta snertifleti.
Lögreglan á Suðurlandi birti tölur yfir stöðuna á Suðurlandi í morgun, en eftir fréttirnar úr Flóahreppi er ljóst að talningin hefur breyst.
Klukkan 11 í morgun voru 20 í einangrun og 102 í sóttkví í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Flestir þeirra eru á Höfn í Hornafirði, þar sem fimm eru í einangrun og 54 í sóttkví.