Ekki er hægt að senda börn á leikskóla í Vík í Mýrdal nema hluta úr viku vegna þess að leikskólakennara vantar til starfa.
RÚV greinir frá þessu.
Ásgeir Magnússon sveitarstjóri segir að víða vanti starfsfólk og húsnæðisskortur setji strik í reikninginn. „Við höfum verið að auglýsa eftir starfsfólki og það er svolítið erfitt þegar þú auglýsir eftir starfsfólki og getur ekki bent þeim á að það bíði þeirra húsnæði hér,“ segir Ásgeir í samtali við RÚV.
Sveitarfélagið hafi beitt sér fyrir fjölgun íbúða, en það taki tíma. Sárlega vantar starfsfólk í leikskólann í Vík, en þar hefur enginn faglærður leikskólakennari starfað í rúmt ár. „Og svo þegar ofan á bætast veikindi þá urðum við að grípa til þess úrræðis að einhver börn yrðu send heim,“ segir Ásgeir.