Undanfarin haust hefur útskriftarhópur leikskólans Heklukots á Hellu safnað birkifræi og fært Landgræðslunni að gjöf. Landgræðslan hefur svo sáð fræinu á ákjósanlega staði í nágrenni Hellu þar sem mun vaxa upp myndarlegur birkiskógur í framtíðinni.
Í ár var engin undanteking á þessu samstarfi og kom Garðar Þorfinnsson, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar, í heimsókn á leikskólann og tók á móti fræinu. Garðar fræddi krakkana um leið um hvað yrði gert við fræið og mikilvægi þess að ganga vel um náttúruna.
Sem þakklætisvott þá hefur Landgræðslan gefið Heklukoti birkiplöntur sem hún hefur afhent krökkunum við útskrift úr leikskólanum.