Grunntaxti leikskólagjalda í Rangárþingi ytra lækkar um liðlega 30% á milli ára með ákvörðun hreppsráðs á dögunum.
Á móti kemur að afslættir minnka til muna og því getur kostnaður foreldra við að hafa börn sínum á leikskólum í sveitarfélögum í einhverjum tilvikum reynst sá sami þrátt fyrir lækkun taxtans.
Að sögn Gunnsteins Ómarssonar sveitarstjóra er um samræmingu og einföldun að ræða enda hafi afsláttakerfið verið flókið og óeðlilegt í samanburði við það sem gerist í öðrum sveitarfélögum.
Þá er fallið frá þeirri stefnu að ekki þurfi að greiða fyrir leikskólavist fimm ára barna, og mun einungis verða gjaldfrjálst fyrir börn á þeim aldri fyrri hluta dags, það er fyrir hádegi. „Þetta er heilt yfir til hagsbóta fyrir íbúa sveitarfélagsins,“ sagði Gunnsteinn.
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson fulltrúi D-lista í hreppsráðinu lagði fram breytingartillögu sem var felld og sat hann hjá við afgreiðslu tillögu meirihlutans. „Ég vildi ganga lengra og láta alla njóta lækkunarinnar,“ sagði Guðmundur Ingi.
„Með tillögu meirihlutans er upp undir fimmtungur foreldra að borga alla lækkunina með hækkun á sínum gjöldum,“ sagði hann. „Mér finnst það ósanngjarnt.“