Leikskólarnir Brimver á Eyrarbakka og Æskukot Stokkseyri verða sameinaðir í einn skóla. Skólastjórum beggja skóla verður sagt upp og ráðið í nýja stöðu yfir sameinuðum skóla.
Breytingin tekur gildi þegar leikskólarnir opna eftir sumarleyfi í ágúst. Stöður beggja leikskólastjóranna verða lagðar niður og auglýst ný staða skólastjóra yfir sameinuðum leikskóla. Fræðslunefnd Árborgar mun taka málið til afgreiðslu á fundi sínum síðdegis í dag.
„Það er búið að skoða það í talsverðan tíma hvað hægt sé að gera í hagræðingu í þessum málaflokki. Leikskólarnir við ströndina eru báðir litlir, um 30 börn á Eyrabakka og færri á Stokkseyri. Þess vegna er þægilegt að sameina þessar einingar,“ sagði Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, í samtali við sunnlenska.is og bætir við að engin tækifæri séu í sameiningu leikskólanna á Selfossi sem eru allir stórir, jafnvel á landsmælikvarða.
Engar breytingar verða að öðru leyti í starfsmannahaldi leikskólanna á Eyrarbakka og Stokkseyri. Aðstoðarleikskólastjóri er á Eyrarbakka en ekki á Stokkseyri og sú staða verður til áfram þó að breyting gæti orðið á hlutfalli stjórnunar á þeirri stöðu.