Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að hefja undirbúning við byggingu nýs sex deilda leikskóla við Engjaland 21 í Dísarstaðalandi á Selfossi.
„Það er stefnan að vinna þetta eins hratt og kostur er og við vonumst til að leikskólinn verði tilbúinn árs 2020,“ sagði Arna Ír Gunnarsdóttir, formaður fræðslunefndar Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.
„Það var samþykkt í desember síðastliðnum að setja fjármuni í leikskólann í Dísarstaðalandi í fjárfestingaáætlun árið 2019 og 2020 og bæjarráð hefur staðfest samning um lóðina við eigendur Dísarstaðalands,“ segir Arna Ír ennfremur.
Arna Ír á sæti í faghóp sem skipaður hefur verið á vegum fræðslusviðs til að vinna með framkvæmda- og veitusviði að byggingu skólans. Í faghópnum eru Arna Ír Gunnarsdóttir, formaður fræðslunefndar, Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri, Júlíana Hilmisdóttir, leikskólaráðgjafi og leikskólastjórarnir Júlíana Tyrfingsdóttir og Kristrún Hafliðadóttir. Fyrir hönd framkvæmda- og veitustjórnar munu Tómas Ellert Tómasson, Sveinn Ægir Birgisson og Jón Tryggvi Guðmundsson vinna með faghópnum.
Dísarstaðaland var í Sandvíkurhreppi en tilheyrir nú syðstu byggð Selfossbæjar og er leikskólalóðin sunnan við hesthúsahverfið á Selfossi, nálægt gatnamótum Austurhóla og Langholts.
(Þar)Næsti leikskóli væntanlega í Björkurstykki
Leikskóli hefur einnig verið á teikniborðinu í Björkurstykki en ekki er gert ráð fyrir að hann verði byggður strax. Arna Ír segir að gert sé ráð fyrir að í Björkurstykki verði byggður grunn- og leikskóli í þremur áföngum.
„Það er gert ráð fyrir að fyrsti áfangi skólans í Björkurstykki verði tilbúinn haustið 2021 fyrir grunnskólanemendur á yngsta stigi. Síðan verður 2. áfangi væntanlega sá að fullbyggja grunnskólahlutann og leikskóli kæmi væntanlega ekki fyrr en í 3. áfanga,“ sagði Arna Ír að lokum.