Leikskólinn opnaður í Félagslundi

Leikskólinn í Flóahreppi opnaði í félagsheimilinu Félagslundi í morgun en leikskólanum Krakkaborg á Þingborg var lokað í gær vegna myglusvepps.

Allir nemendur mættu á nýjum stað í morgun og allt gekk vel að sögn Margrétar Sigurðardóttur, sveitarstjóra.

„Gærdagurinn var notaður til að undirbúa Félagslund sem bráðabirgðarhúsnæði fyrir leikskólann og það verður að teljast afrek hjá starfsmönnum og húsvörðum að hrinda svo miklu í framkvæmd sem raun ber vitni. Það hafa allir lagst á eitt til að gera þetta mögulegt með svo stuttum fyrirvara og það er mjög mikils virði en stjórnendur, starfsmenn og foreldrar hafa sýnt þessum aðstæðum mikinn skilning,“ sagði Margrét í samtali við sunnlenska.is.

„Í dag eigum við von á ráðgjöfum frá Húsi og heilsu sem ætla að fara yfir það með okkur hvað þarf að gera í framhaldinu og í framhaldinu metur sveitarstjórn í hvaða framkvæmdir verður farið.“

TENGDAR FRÉTTIR:
Krakkaborg lokað vegna myglusvepps

Fyrri greinMenningaminjar liggja undir skemmdum
Næsta greinHvolsskóli gekk á fjögur fjöll