Sveitarstjórn Flóahrepps hefur samþykkt að halda áfram vinnu við uppbyggingu á leikskólanum Krakkaborg í Þingborg.
Leikskólinn er í dag starfræktur tímabundið í Flóaskóla í Villingaholti eftir að myglusveppur kom upp í húsinu í Þingborg. Háværar raddir hafa verið í sveitarfélaginu um að leik- og grunnskóli verði til frambúðar undir einu þaki í Flóaskóla. Könnun meðal íbúa samhliða Alþingiskosningunum í vor leiddi í ljós að meirihluti var fyrir því að leikskólinn yrði áfram í Þingborg.
Sveitarstjórn Flóahrepps ákvað á síðasta fundi sínum að byggja upp í Þingborg en gert er ráð fyrir endurnýjun á 73,5 fermetra tengibyggingu og nýrri 172,3 fermetra viðbyggingu fyrir tvær deildir. Einnig er gert ráð fyrir miklum endurbótum og viðhaldi á eldra húsnæði.
Sveitarstjórn samþykkti að óska eftir tilboðum í hönnun burðarvirkis, pípulagna, rafmagns og loftræstingar og að fela vinnuhóp um leikskólamál að halda áfram vinnu við undirbúning uppbyggingar leikskóla í Þingborg.
Á sama fundi samþykkti sveitarstjórn að skoða hagkvæmni þess að hafa sameiginlegan stjórnanda fyrir leik- og grunnskóla Flóahrepps, auk þess sem samþykkt var að ráða einn starfsmann í leikskólann tímabundið til 30. júní 2014.