Kristján Einarsson, slökkviliðsstjóri á Selfossi, segir að slökkvistarf í Selós hafi gengið vel og menn hafi fljótt náð tökum á ástandinu.
„Okkur virtist við fyrstu sýn að eldurinn væri utan á húsinu sunnanmegin. Þegar betur var að gáð þá var gríðarlegur hiti í húsinu og allir gluggar orðnir svartir þannig að þetta leit alls ekki vel út í upphafi,“ sagði Kristján í samtali við sunnlenska.is.
„Það var ekki mikill eldur í húsinu til að byrja með og hann virðist hafa verið staðbundinn. En hitinn var orðinn mjög mikill og hér er mikill eldsmatur svo að eldurinn var fljótur að fara um húsið þegar loft og annað kom að honum. Við vitum ekki hver upptökin eru en það virðist vera eitthvað útfrá lakkgeymslunni,“ segir Kristján en húsið var mannlaust þegar eldurinn kom upp og engar vélar í gangi í húsinu.
Slökkviliðið í Árborg og Þorlákshöfn unnu að slökkvistarfinu ásamt liðsauka frá Slökkviliði Hveragerðis. „Við erum með samning við liðið í Hveragerði, þeir koma hingað þegar eitthvað stórt gerist og við sömuleiðis til þeirra. Það er gríðarlega gott að vita af þessum mikla slökkvimætti sem er hér á svæðinu,“ segir Kristján en u.þ.b. 40 slökkviliðsmenn unnu að slökkvistarfinu.
„Það gekk mjög vel þegar við vorum búnir að koma út slöngum og öðru slíku. Það var enginn vatnsskortur, við létum skrúfa fyrir vatn hérna niðureftir þannig að við fengum allt það vatn sem við þurftum. Þannig náðum við fljótt tökum á ástandinu,“ segir Kristján en á tímabili óttuðust menn að þakið á húsinu myndi falla.
„Þetta er stálgrindarhús og þakið þolir illa hitann en það er greinilegt að það hefur kraumað nokkuð lengi í húsinu áður en það fór að sjást reykur,“ segir Kristján en lögreglumenn á ferð um Eyraveg urðu fyrstir varir við reykinn í sömu mund og fyrstu tilkynningar fóru að berast Neyðarlínunni.
Slökkvistarfi var að mestu lokið um klukkan 23:30 en húsið verður vaktað fram á nótt.
Myndir frá eldsvoðanum má sjá í myndasafninu hér til hægri en þær tóku Egill Bjarnason, Ívar Bjarki Lárusson, Vignir Egill Vigfússon, Rakel Sif Ragnarsdóttir, Helga R. Einarsdóttir og Guðmundur Karl Sigurdórsson.