Leit hætt á jöklinum – Enginn undir ísnum

Frá aðgerðum á Breiðamerkurjökli. Ljósmynd/Landsbjörg

Leit á Breiðamerkurjökli hefur verið afturkölluð þegar búið var að færa til allan ís sem féll í slysinu. Í ljós hefur komið að 23 ferðamenn voru í íshellaferðinni en ekki 25 eins og í fyrstu var talið.

Þegar útkallið barst í gær fengu viðbragðsaðilar þær upplýsingar að þarna hefðu verið 25 manns á ferð og hefðu fjórir orðið fyrir íshruni, tveir væru fyrir utan íshellinn, mikið slasaðir, en að tveir aðrir hefðu grafist undir ís sem féll niður úr hvelfingu sem gengið var um.

Nú fyrir stundu tilkynnti vettvangsstjóri lögreglunnar, sem staðsettur er á vettvangi, að búið sé að færa til allan þann ís sem talinn var hafa fallið á fólkið og falið það. Í ljós hefur komið að enginn var undir ísnum og útilokað að það fólk sem leitað hefur verið að og talið að sé falið undir ís.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að ljóst sé að skráning í ferðina og utanumhald hafi ekki verið nákvæmt auk misvísandi upplýsinga um fjölda í ferðinni. Miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir þótti ekki forsvaranlegt annað en að halda leit áfram þar til búið væri að fá fullvissu um að enginn væri undir ísfarginu.

Fólkið sem lenti undir ísfarginu og náðist undan því í gær voru par, karlmaðurinn var úrskurðaður látinn á vettvangi í gær, en konan flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysadeild í Fossvogi þar sem hún liggur. Líðan hennar er sem fyrr stöðug og ekki í lífshættu. Þau eru bandarískir ríkisborgarar.

Þrekvirki unnið á vettvangi
Hátt í 200 viðbragðsaðilar hafa tekið þátt í þessari björgunar- og leitaraðgerð og segir lögreglan að mikið þrekvirki hafi verið unnið þarna á vettvangi, en búið er að brjóta niður og færa til gríðarlegt magn af ís og var það meira og minna allt gert með handafli.

Lögreglan á Suðurlandi vill því þakka öllum þeim viðbragðsaðilum sem komu að leitar- og björgunaraðgerðinni, sem og ferðaþjónustuaðilum í nágrenni slysstaðar sem aðstoðuðu leitar- og björgunar fólk með gistingu og mat síðastliðinn sólarhring.

Lögreglan mun áfram vinna að rannsókn á tildrögum slyssins.

Frá aðgerðum á Breiðamerkurjökli. Ljósmynd/Landsbjörg
Fyrri greinBlekið þornar ekki á Selfossi
Næsta greinÍshellaferðum á Breiðamerkurjökli hætt að svo stöddu