Lögreglan á Selfossi leitar að þjófi sem hefur hyrndan dádýrshaus í fórum sínum.
Þjófurinn braust inn í sumarbústað í Miðhúsaskógi í Biskupstungum síðari hluta maímánaðar en innbrotið var tilkynnt í síðustu viku. Eigendurnir höfðu þá ekki komið í bústaðinn í tvær vikur.
Í sama innbroti var stolið gamalli byssu, svokölluðum framhlaðningi frá tíma Þrælastríðsins í Ameríku. Hann er nú kominn í hendur lögreglu. Lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu höfðu afskipti af mönnum fyrir nokkru sem voru með dádýrshaus og framhlaðning í bifreið sinni. Lögreglan lagði hald á framhlaðninginn en þar sem mennirnir sögðust eiga hausinn var hann ekki haldlagður.
Dádýrshausinn hefur mikið minjagildi fyrir eigandann, sem skaut hann sjálfur í Kanada fyrir þrjátíu árum síðan.