Neyðarlínan fékk tilkynningu um að fólksbíll hefði farið út í Ölfusá við Básinn austan við Selfosskirkju laust eftir klukkan hálfellefu í kvöld. Víðtæk leit stendur yfir á ánni og bökkum hennar.
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, sagði í samtali við sunnlenska.is að sjónarvottur hefði séð bílinn fara í ána og haft samband við Neyðarlínuna. Ekki er vitað hversu margir eru um borð í bílnum.
Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út ásamt slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar er á leið til leitar ásamt köfurum úr slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Áin er mjög djúp og straumþung á þeim stað sem bíllinn hvarf í vatnið.