Björgunarsveitir í Árnessýslu hafa verið kallaðar út til leitar að feðgum úr Reykjavík en bíll þeirra fannst mannlaus og læstur í Klukkuskarði í dag.
Talið er að mennirnir hafi farið úr Reykjavík í gær og ætlað að vera komnir heim til sín aftur um kvöldmatarleytið í gær. Lögregla útilokar þó ekki að þeir hafi breytt ferðaáætlun sinni án þess að láta ættingja vita og farið af stað í dag. Faðirinn er um áttrætt og synir hans 50-60 ára.
Leitað er á svæðinu í kringum Klukkutinda fyrir ofan Laugarvatn, sunnan Skjaldbreiðar.
Á sama tíma er Björgunarsveitin Tintron í Grímsnesi að aðstoða erlenda ferðamenn sem fest hafa bíl sinn í aurbleytu á línuveginum norðan Skjaldbreiðar.