Allar björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út laust fyrir klukkan níu í kvöld til leitar að erlendum ferðamanni í Reykjadal fyrir ofan Hveragerði.
Maðurinn fór ásamt félaga sínum í heita lækinn í Reykjadal seinni partinn í dag. Á leiðinni til baka að bíl þeirra, þar sem tvær vinkonur þeirra biðu, urðu þeir viðskila og hefur ekkert sést til hans síðan. Félagi hans kom á bílastæðið fyrir um klukkustund og bað í framhaldinu um aðstoð.
Þoka og rigning er á leitarsvæðinu og hafa leitarhundar m.a. verið kallaðir út. Maðurinn er illa búinn og ekki kunnugur staðháttum.