Hafin er eftirgrennlan eftir fjórum ferðamönnum sem fóru í morgun á tveimur bílum frá Höfn áleiðis að sveitabæ vestan Kirkjubæjarklausturs þar sem þeir hugðust gista en þeir hafa ekki skilað sér þangað.
Björgunarsveitir aka nú veginn á milli til að kanna hvar fólkið er niðurkomið en talið er að það sé á eða við þjóðveginn.
Um 100 björgunarsveitamenn eru nú að störfum í og við öskufallssvæðið fyrir austan. Sinna þeir þar ýmsum störfum, svo sem að manna lokunarpósta á vegum, aðstoð við bændur, dreifingu á grímum og gleraugum, fólksflutningum og fleira. Sveitir allt frá Höfn að Selfossi taka þátt í störfunum. Einnig er hópur frá Hjálparsveit skáta í Reykjavík á Höfn en hann var að koma úr ferð í Grímsvötn stuttu áður en gos hófst.
Brynvarinn bíll Björgunarsveitarinnar Kára í Öræfum er á svæðinu og annar slíkur er á leiðinni frá Björgunarfélagi Akraness. Bílarnir eru búnir til að þola mikið öskufall og reynast því vel við svona aðstæður.