Björgunarsveitir á Suðurlandi hafa verið kallaðar út til leitar að göngumanni á Fimmvörðuhálsi. Um er að ræða erlendan ferðalang sem hugðist ganga hálsinn en hringdi eftir aðstoð þegar hann villtist af leið.
Samkvæmt upplýsingum frá göngugarpinum er hann líklegast staddur norðan við Baldvinsskála. Ekkert amar að manninum sem stendur en þoka er á svæðinu og lítið skyggni og mun hann halda kyrru fyrir þar til aðstoð berst.
Uppfært kl. 17:59: Fleiri björgunarsveitir úr Árnessýslu og Rangárvallasýslu hafa verið boðaðar til leitarinnar sem nú hefur staðið í á fjórðu klukkustund. Þungt færi er á Fimmvörðuhálsi og reynast snjóbílar og vélsleðar bestu bjargirnar í þessu færi en einnig er notast við jeppa og fjórhjól á beltum.
Uppfært kl. 18:41: Göngumaðurinn hefur enn ekki fundist. Fyrr í dag gaf maðurinn Neyðarlínu og lögreglu upp GPS hnit með staðsetningu sinni en þeim bar ekki saman svo ekki er vitað nákvæmlega hvar hann var staddur.
Björgunarsveitir á Suðurlandi hafa leitað á hálsinum í dag án árangurs. Síðdegis var kallað eftir aðstoð vélsleða og snjóbíla frá björgunarsveitum í Árnessýslu og nú er verið að fá slíkan liðsauka af höfuðborgarsvæðinu. Mikið kapp er lagt á að finna manninn sem fyrst. Aðstæður á Fimmvörðuhálsi eru erfiðar; þar snjóar og skyggni er lítið sem ekkert og færi þungt.