Sveitarfélagið Árborg hefur auglýst eftir íbúðarhúsnæði til leigu á Selfossi fyrir fjölskyldur flóttamanna sem væntanlegar eru til landsins í vetur.
Velferðarráðuneytið vinnur að undirbúningi að komu næsta hóps flóttamanna frá Sýrlandi til Íslands, en gert er ráð fyrir að um tuttugu flóttamenn fái nýtt heimili í Hveragerði og í Árborg.
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, segir að ekki sé vitað um nákvæman komutíma, en ekki er þó gert ráð fyrir hópnum fyrr en í nóvember í fyrsta lagi.
„Við höfum enn sem komið er ekki aðrar upplýsingar um samsetningu hópsins en þær að líklega verði um stórar fjölskyldur að ræða og því er auglýst eftir íbúðum með nokkrum svefnherbergjum,“ sagði Ásta í samtali við sunnlenska.is.
Sveitarfélagið leitar því að íbúðum með 3-4 svefnherbergjum og þarf það að vera laust til afnota í nóvember.