Hundruðir kvenna í uppsveitum Árnessýslu mótmæla því að fá ekki lengur krabbameinsskoðun í heilsugæslustöðinni í Laugarási eins og verið hefur undanfarin ár.
Síðustu daga hefur staðið yfir undirskriftarsöfnun í uppsveitunum þar sem konur á öllum aldri mótmæla því harðlega að skipulögð krabbameinsleit hafi verið flutt frá Laugarási á sjúkrahúsið á Selfossi.
„Það skýtur skökku við að vera með herferð í gangi þar sem „leitað“ er að konum sem eiga að koma í skoðun ef þjónustan er svo skert á þann hátt sem raun ber vitni,“ segir á undirskriftarlistanum. Facebook síða var stofnuð sem liður í mótmælunum og á tólf klukkustundum söfnuðust nöfnum rúmlega 200 kvenna í uppsveitunum. „Við segjum nei við Selfossi og með undirskriftarlista þessum viljum við leggja enn ríkari áherslu á það að á raddir okkar verði hlustað, það er lífsspursmál,“ segir ennfremur á listanum sem skilað verður á næstu dögum.
Anna María Snorradóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, segir að það sé alfarið ákvörðun Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands að fækka skoðunarstöðum. „Við munum í framtíðinni bjóða konum í uppsveitunum að koma í leghálskrabbameinsleit til ljósmóður í Laugarási en nú hafa ljósmæður hjá okkur fengið þjálfun í að taka sýni. Brjóstamyndatakan verður eingöngu á Selfossi fyrir Árnessýslu,“ sagði Anna María í samtali við Sunnlenska.