Lögreglan hefur í dag leitað strokufangans Matthíasar Mána Erlingssonar á fjórum stöðum á Suðurlandi sem hann er talinn þekkja vel til á.
Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í viðtali við Ríkisútvarpið að leitað hafi verið við Laugarvatn þar sem Matthías hefur unnið og þekkir vel til. Hann bendir fólki á þeim slóðum að hafa augun hjá sér.
Þá segir Arnar Rúnar að Matthías hafi tengingu við Hveragerði og Laugarás þar sem hann hann bjó og starfaði um tíma. Þá hefur lögreglan einnig leitað á Flúðum. Ástæðan fyrir því sé að þegar Matthías flúði úr fangelsinu hafi konan sem hann var dæmdur fyrir að ráðast á, dvalið þar og Matthías vitað af henni.
Lögreglan hefur undanfarna daga kannað allar ábendingar frá almenningi um ferðir Matthíasar. Þeirra á meðal eru ábendingar frá miðlum og skyggnu fólki, segir Arnar Rúnar. Hann segir að miðlar hafi haft samband við lögreglu með ábendingar um ferðir strokufangans. Arnar Rúnar segir ábendingar miðlanna hafa verið áhugaverðar en engum árangri skilað.