Leit stendur yfir að norskum göngumanni sem lagði af stað frá skálanum á Fimmvörðuhálsi seinni partinn í gær á leið í Þórsmörk. Hann hringdi í Neyðarlínuna í nótt og bað um aðstoð.
Maðurinn gat ekki gefið upp staðsetningu. Björgunarsveitin Dagrenning frá Hvolsvelli var kölluð út og lögðu björgunarsveitarmenn af stað til að finna manninn.
Enn er ekki ljóst hvar nákvæmlega maðurinn er staðsettur en ekki hefur náðst símasamband við manninn síðan í morgun, líklega vegna rafmagnsleysi símans.
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar af suðvesturhorninu hafa verið kallaðar út og er leit í fullum gangi.