Leitað að tveimur mönnum vegna innbrota

Lögreglan á Selfossi kallar eftir upplýsingum um tvo unga karlmenn sem eru grunaðir um innbrot í tvö heimahús á Selfossi aðfaranótt sunnudags.

Annað húsið er í Laufhaga og hitt í Reyrhaga. Á öðrum staðnum var svalahurð spennt upp en á hinum gluggi sem er 21 sentimetri á breidd og skriðið inn um hann.

Rótað var í skápum og skúffum. Skartgripir úr gulli voru teknir en silfur látið vera. Einni vínflösku var stolið á sitt hvorum staðnum.

Þessa nótt sást til tveggja ungra manna á göngu austur Reyrhaga yfir í Dælengi. Annar mannanna var með vínflösku í hendi sem hann kastaði frá sér. Sú flaska var úr öðru húsinu.

Vitað er að þessa sömu nótt var tveimur ungum mönnum vísað á dyr á veitingastaðnum Frón við Eyraveg á Selfossi.

Lögreglan á Selfossi biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um innbrotin og hverjir þessir ungu menn eru.

Fyrri greinBúið að selja Ræktó
Næsta greinEfnilegir unglingar verðlaunaðir