Um klukkan sjö í gær var tilkynnt um innbrot í Gesthús á Selfossi. Vitni sá til ungs manns koma út úr húsinu og fara í burtu á reiðhjóli.
Í ljós kom að búið var að taka nokkuð magn af áfengi sem fannst skömmu síðar falið skammt frá húsinu. Innbrotsþjófurinn er ófundinn.
Hann er talinn vera um tvítugt, 170 sm á hæð, breiðleitur sennilega burstaklipptur með gisnar tennur. Maðurinn var í grárri hettupeysu með mynstri og í gallabuxum. Reiðhjólið sem maðurinn fór á var ljósgrátt.
Lögregla biður þá sem veitt geta upplýsingar um málið að hafa samband í síma 480 1010.