Skömmu eftir klukkan þrjú aðfaranótt mánudags barst lögreglu tilkynning um yfirstandandi slagsmál fyrir utan skemmtistaðinn Hvítahúsið á Selfossi.
Lögregla og sjúkralið fóru strax á vettvang og þegar þangað kom lá sá sem fyrir árásinni varð meðvitundarlaus á gangstétt.
Aðdragandi árásarinnar er ekki að fullu ljós en vísbendingar voru um að tveir menn hefðu ráðist á manninn, komið honum í jörðina og síðan sparkað í höfuð hans.
Árásarþolinn var fluttur á heilsugæslustöðina á Selfossi þar sem sár á höfði var saumað. Hann komst til meðvitundar og ekki kom til innlagnar.
Meintir árásarmenn voru handteknir og færðir í fangageymslu en eftir yfirheyrslur voru þeir látnir lausir.
Árásin er í rannsókn hjá lögreglunni á Suðurlandi og hafa nokkur vitni verið yfirheyrð.
Lögreglan biður alla þá sem vitni urðu að aðdraganda árásarinnar eða árásinni sjálfri, eða jafnvel hafa tekið atvikið upp á myndsíma, að gefa sig fram við lögreglu síma 444 2010 eða í tölvupósti sudurland@logreglan.is.