Rúmlega tvítugur karlmaður fékk höfuðhögg þegar hann ók bifreið sinni út í skurð á Gaulverjabæjarvegi um klukkan tvö í nótt.
Maðurinn vankaðist við höggið og gat ekki gefið Neyðarlínunni upp nákvæma staðsetningu sína. Lögregla og björgunarsveit hófu því leit að manninum.
Um kl. 3 gerði maðurinn vart við sig í Sölvholti í Flóahreppi, víðs fjarri staðnum sem hann taldi sig vera á.
Maðurinn var blautur og hrakinn en bíll hans hafði hafnað ofan í skurði fullum af vatni. Hann var fluttur til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi og þaðan á slysadeild í Reykjavík til aðhlynningar.