Leitað af fullum krafti í nótt

Enn eru á þriðja hundrað björgunarsveitamenn við leit í og við Sólheimajökul þar sem sænskur ferðamaður er týndur. Hundar og þyrla LHG taka einnig þátt í leitinni.

Verið er að leita á sjálfum jöklinum en þar sem aðstæður eru erfiðar er aðeins mjög vant fjallafólk þar. Aðrir leitarmenn kemba svæðin í kringum jökulinn.

Sem stendur er þokkalegt leitarveður á svæðinu og skyggni ágætt. Þyrla LHG tekur þátt í leitinni í kvöld. Áformað er að leita af fullum krafti í alla nótt.

Rauði kross Íslands hefur séð um að björgunarfólk fái að borða og útvegað gistingu fyrir þá sem þurfa á hvíld að halda. Eigendur hótela og gistiheimila í nágrenninu hafa opnað dyr sínar í þessum tilgangi.

Fyrri greinGunnlaugur sigraði
Næsta greinLandgræðsluverðlaunin veitt í tuttugasta sinn