Björgunarsveitir frá Landsbjörgu hafa í dag leitað að bandarískum ferðamanni sem sást síðast þann 10. september á gönguleiðinni milli Landmannalauga og Hrafntinnuskers.
Leitað verður fram í myrkur í kvöld en í fyrramálið hefst leit af miklum þunga strax í birtingu. Stefnt er að því að björgunarsveitir af Suðurlandi öllu og höfuðborgarsvæðinu verði mættar í Hrafntinnusker eldsnemma í fyrramálið.
Munu göngumenn kemba svæðið en einnig verður notast við leitarhunda og fisflugvélar. Er reiknað með að vel á annað hundrað manns verði við leit á svæðinu á morgun.
Engar vísbendingar hafa fundist sem benda til þess að viðkomandi ferðamaður hafi yfirgefið svæðið en vonskuveður var á svæðinu þegar hann var þar við göngu. Sneru þrír samferðarmenn hans við vegna veðursins en hann hélt áfram för.
Leitað verður fram í myrkur á morgun en beri leitin ekki árangur verður staðan tekin eftir það varðandi frekari leit.