STARF – vinnumiðlun og ráðgjöf er þessa dagana að kynna verkefni sem ber yfirskriftina „Sumarstörf á landsbyggðinni“, en það gengur út á að leita eftir samstarfi við ferðaþjónustufyrirtæki vítt og breytt um landið sem hafa í hyggju að ráða til sín sumarstarfsfólk.
Að sögn Líneyjar Árnadóttur, sérfræðings hjá Starfi, er líklegt að með auknum umsvifum í ferðaþjónustu aukist eftirspurn eftir starfsfólki. Verkefni Starfs gengur út á það að ná sambandi við þau fyrirtæki sem eru að leita að starfsfólki fyrir sumarvertíðina og fá þau til að ráða til sín fólk sem er á lausu.
STARF er nú þegar með á skrá marga einstaklinga sem hafa áhuga á að vinna við ferðaþjónustu úti á landi og er með þessu átaki að aðstoða þá við að finna störfin.
„Einstaklingarnir sem um ræðir hafa sýnt því áhuga að starfa t.a.m. á gistiheimilum, veitingahúsum, við afþreyingarferðaþjónustu, bílaleigur, ferðaskrifstofur, flugþjónustu eða hópbifreiðar. Um er að ræða fjölbreyttan hóp með margvíslegan bakgrunn og eru nokkrir með góða menntun eða reynslu af ferðaþjónustu. Þeir geta hafið störf nánast strax og starfað vel inn í haustið eða jafnvel til frambúðar,“ segir Líney.